Þegar undirritaður var snúningastrákur í Flóanum á sjötta áratugnum var Selfoss eins og hver önnur New York mitt í flatneskjunni. Og Kaupfélag Árnesinga ígildi World Trade Center. Eins og ósökkvandi flugmóðurskip eða Titanic klauf það regnhryðjurnar sem bylgjuðust eftir Suðurlandsundirlendinu. Það hefði þótt álíka sennilegt að þetta stórveldi ætti eftir að kollsigla sig og að til að mynda Ingólfsfjalli yrði einn góðan veðurdag mokað burt.
Og þó er það einmitt þetta sem hefur hent.
[…]
Hvaða álög skyldu annars hvíla á okkur að hagvöxtur og skynsemi skuli svo sjaldan haldast í hendur? Að bullandi óráð skuli vera kjöraðstæður efnahagslífsins?
Og samt eru þetta öfl sem ganga fram með grafalvarlegu bragði og skynsemina letraða á gunnfánann. Það hefði til að mynda aldrei komið til álita að nota þennan milljarð til að reisa fullkominn stjörnukíki uppi á Ingólfsfjalli. Sem þó hefði verið ókomnum og jafnvel núverandi kynslóðum til yndisauka og innblásturs. Fyrir utan aðsóknina hvaðanæva að með tilheyrandi stoppi í sjoppunni. […] Við eina saman uppástunguna hefðu ábyrgir aðilar í verktakabransanum hlegið hástöfum inn í handfrjálsa búnaðinn sinn og fjármálasnillingarnir horfið inn í farkosti sína.

Pétur Gunnarsson: „Undur og furður í Flóanum“ Fréttablaðið 20. júlí 2003. Bls. 11.