2. des. héldu þingmenn Árnesinga fund með fulltrúum úr sýslunni að Selfossi. Er það áreiðanlega einn hinn þýðingarmesti þingmálafundur hér á landi, sem haldinn hefir verið síðan bændafundurinn var haldinn að Þjórsártúni fyrir 6 árum, þar sem drög voru lögð að myndun Framsóknarflokksins.
Fundurinn á Selfossi stóð nálega heilt dægur. Skipuleg, alvarleg ræðuhöld um mesta vandamál þjóðarinnar. Engin rödd heyrðist tala í anda Mbl. eða þess stefnu. Gegnum allar umræðurnar og ályktanirnar gekk sterkur undirstraumur móti ráðsmensku braskaranna í kauptúnunum, sem dregið hafa til sín vinnuaflið úr sveitunum, veltuféð úr stærsta banka landsins og yfirráð verslunarinnar, en eru nú búnir að sigla öllu í strand, senda útslitna, fátæka fólkið heim á sveitirnar, láta gefa sér upp margar miljónir í Íslandsbanka, og hafa komið fisksölunni í hendur erlendra stórbraskara. Þrjár veigamiklar tillögur gengu sérstaklega móti þessari stefnu. Hin fyrsta var í sveitfestismálinu, og stefndi í þá átt, að þeir staðir, sem draga að sér vinnuaflið, verði líka að bera ábyrgð á því fólki, þegar það verður þurfamenn. Í öðru lagi var vítt harðlega óstjórn sú, sem verið hefir á Íslandsbanka, og heimtað að forsætisráðherra landsins væri ekki í bankaráði hans, né færi með umboð erlendra hluthafa. Stjórnin eða þeir af ráðherrunum, sem ábyrgð bera á því, að landið hefir ekki enn skipað trúnaðarmenn í Íslandsbanka, fékk vantraust fyrir hættulegt aðgerðaleysi í þeim efnum. Var í sömu tillögu tekið fram að stjórn Jóns Magnússonar hefði áður fallið frægðarlaus af sömu ástæðu.
Þá var í þriðja lagi skorað á þingið að beitast fyrir umbótum á afurðasölunni.

„Selfoss-fundurinn“ Tíminn 9. desember 1922. Bls. 166.