„Austur við Ölfusá hefur vaxið þorp á síðustu árum.“
Á þessum orðum hefst forystugrein dagblaðsins „Tíminn“ á föstudaginn var, sem nefnist „Fjöregg byggðanna.“ Fjöreggið eru kaupfélögin, og blaðið lýsir því, hvernig kaupfélagið byggði upp þorpið við Ölfusá og hvílík dæmalaus björg það er, að slíkt þorp skyldi rísa upp.
Blaðið segir:
„Það er ösköp eðlilegt, að þorpið á Selfossi hafi vaxið upp. […] Þar er kaupfélag og mjólkurbú. Í sambandi við rekstur þeirra starfar hópur bílstjóra, og vegna þeirra starfs og flutninganna er rekið þarna allmikið bílaverkstæði. Og þegar margir tugir fjölskyldumanna búa saman í einu þorpi, þarf þar að vera hópur ýmiss konar iðnaðarmanna. Þar styður hvað annað.“
– Já, þar styður hvað annað. Fólk fer úr sveitinni, sezt að í þorpinu. Þar rís upp bílstjórastétt, sem lifir á því að keyra út um sveitirnar, þar sem bændur ekki geta vikið sér frá vegna fólkseklu. Og svo tengist hver dásemdin annarri, því á bílstjóranum lifa svo bílaviðgerðarmennirnir, því þarna er „rekið allmikið bifvélaverkstæði“, segir Tíminn. Svo koma iðnaðarmenn sem lifa, að því er virðist, á öllum hinum. „Margir tugir fjölskyldumanna“ þurfa að brúka iðnaðarmenn, segir Tíminn.
Svo heldur blaðið áfram, og er auðfundið, að það getur ekki nógsamlega velt uppi í sér tuggunni. Bragðið er svo gott. Þetta minnir á drýgindalegan tóbakskarl, sem flytur tóbakstöluna með tungunni úr hreiðri sínu vinstra megin og flytur hana hátíðlega yfir til hægri.
„Fyrir sveitirnar í kring er svona þorp mikils virði. Það er gott fyrir bændur að eiga aðgang að viðgerðarverkstæði í grennd við sig. Það er líka mikils virði að geta náð til kunnáttumanna, þegar þeirra þarf með, við byggingar eða annað. Við svona uppbyggingu styður hvað annað. Vegna þess að þarna á Selfossi er verzlun, eru þar bílstjórar, og vegna þess hvors tveggja er þar viðgerðarverkstæði, og vegna þess alls saman eru þar aðrir iðnaðarmenn … Þannig kallar hvað á annað og styður hvað annað …“
Eftir að Tíminn hefur margflutt bitann til í munninum og kjamsað á því, hvílík dæmalaus bjargráðastarfsemi sé framkvæmd á Selfossi, safnar blaðið saman leginum og sósunni, sem myndazt hefur við tanngarðana og spýtir kolmórauðri svívirðingagusu til þeirra, sem ekki séu hólpnir fyrir trúna á Kaupfélag Árnesinga og S.Í.S.

„Þar styður hvað annað. Mánudagsþankar Jóns Reykvíkings“. Mánudagsblaðið 9. maí 1949.