Velkomin




Verið velkomin á þessa kynningarsíðu um væntanlega bók mína, Selfoss, sem bókaútgáfan Sæmundur gefur út. Í bókinni er ljósmyndum sem ég hef tekið af Selfossi stillt upp við hliðina á textum úr ýmsum áttum sem allir eiga það sameiginlegt að tengjast þorpinu á einn eða annan hátt. Með því reyni ég að sýna Selfoss í nýju ljósi. Formáli bókarinnar er eftir Pál Sigurðsson skógfræðing.

Bókin er komin út, almennt verð er 4.980 kr. og fæst hún í öllum helstu bókabúðum.


Í október stendur yfir sýning í Bókasafni Árborgar á Selfossi á nokkrum myndum úr bókinni. Laugardaginn 8. október frá kl. 11 til kl. 14 verður bókin kynnt á sýningunni.

Gunnar Marel Hinriksson.


„Austur við Ölfusá hefur vaxið þorp á síðustu árum.“
Á þessum orðum hefst forystugrein dagblaðsins „Tíminn“ á föstudaginn var, sem nefnist „Fjöregg byggðanna.“ Fjöreggið eru kaupfélögin, og blaðið lýsir því, hvernig kaupfélagið byggði upp þorpið við Ölfusá og hvílík dæmalaus björg það er, að slíkt þorp skyldi rísa upp.
Blaðið segir:
„Það er ösköp eðlilegt, að þorpið á Selfossi hafi vaxið upp. […] Þar er kaupfélag og mjólkurbú. Í sambandi við rekstur þeirra starfar hópur bílstjóra, og vegna þeirra starfs og flutninganna er rekið þarna allmikið bílaverkstæði. Og þegar margir tugir fjölskyldumanna búa saman í einu þorpi, þarf þar að vera hópur ýmiss konar iðnaðarmanna. Þar styður hvað annað.“
– Já, þar styður hvað annað. Fólk fer úr sveitinni, sezt að í þorpinu. Þar rís upp bílstjórastétt, sem lifir á því að keyra út um sveitirnar, þar sem bændur ekki geta vikið sér frá vegna fólkseklu. Og svo tengist hver dásemdin annarri, því á bílstjóranum lifa svo bílaviðgerðarmennirnir, því þarna er „rekið allmikið bifvélaverkstæði“, segir Tíminn. Svo koma iðnaðarmenn sem lifa, að því er virðist, á öllum hinum. „Margir tugir fjölskyldumanna“ þurfa að brúka iðnaðarmenn, segir Tíminn.
Svo heldur blaðið áfram, og er auðfundið, að það getur ekki nógsamlega velt uppi í sér tuggunni. Bragðið er svo gott. Þetta minnir á drýgindalegan tóbakskarl, sem flytur tóbakstöluna með tungunni úr hreiðri sínu vinstra megin og flytur hana hátíðlega yfir til hægri.
„Fyrir sveitirnar í kring er svona þorp mikils virði. Það er gott fyrir bændur að eiga aðgang að viðgerðarverkstæði í grennd við sig. Það er líka mikils virði að geta náð til kunnáttumanna, þegar þeirra þarf með, við byggingar eða annað. Við svona uppbyggingu styður hvað annað. Vegna þess að þarna á Selfossi er verzlun, eru þar bílstjórar, og vegna þess hvors tveggja er þar viðgerðarverkstæði, og vegna þess alls saman eru þar aðrir iðnaðarmenn … Þannig kallar hvað á annað og styður hvað annað …“
Eftir að Tíminn hefur margflutt bitann til í munninum og kjamsað á því, hvílík dæmalaus bjargráðastarfsemi sé framkvæmd á Selfossi, safnar blaðið saman leginum og sósunni, sem myndazt hefur við tanngarðana og spýtir kolmórauðri svívirðingagusu til þeirra, sem ekki séu hólpnir fyrir trúna á Kaupfélag Árnesinga og S.Í.S.

„Þar styður hvað annað. Mánudagsþankar Jóns Reykvíkings“. Mánudagsblaðið 9. maí 1949.


Hin mikla uppbygging á íbúðalóðum í Árborg, á Selfossi, heldur áfram. Á nýbyggingarsvæðunum í Suðurbyggð og í Fosslandinu eru mikil umsvif við gatnagerð og húsbyggingar. Unnið er af kappi við gatnagerð af hálfu sveitarfélagsins í Suðurbyggð en í Fosslandinu er gatnagerð lengra komin. Á báðum svæðunum eru hús í smíðum á öllum byggingarstigum, hjá einstaklingum og byggingaverktökum.

„Deiliskipuleggja þarf fleiri íbúðasvæði til að anna eftirspurn“ Fasteignablað Morgunblaðsins 15. mars 2004. Bls. 53.


2. des. héldu þingmenn Árnesinga fund með fulltrúum úr sýslunni að Selfossi. Er það áreiðanlega einn hinn þýðingarmesti þingmálafundur hér á landi, sem haldinn hefir verið síðan bændafundurinn var haldinn að Þjórsártúni fyrir 6 árum, þar sem drög voru lögð að myndun Framsóknarflokksins.
Fundurinn á Selfossi stóð nálega heilt dægur. Skipuleg, alvarleg ræðuhöld um mesta vandamál þjóðarinnar. Engin rödd heyrðist tala í anda Mbl. eða þess stefnu. Gegnum allar umræðurnar og ályktanirnar gekk sterkur undirstraumur móti ráðsmensku braskaranna í kauptúnunum, sem dregið hafa til sín vinnuaflið úr sveitunum, veltuféð úr stærsta banka landsins og yfirráð verslunarinnar, en eru nú búnir að sigla öllu í strand, senda útslitna, fátæka fólkið heim á sveitirnar, láta gefa sér upp margar miljónir í Íslandsbanka, og hafa komið fisksölunni í hendur erlendra stórbraskara. Þrjár veigamiklar tillögur gengu sérstaklega móti þessari stefnu. Hin fyrsta var í sveitfestismálinu, og stefndi í þá átt, að þeir staðir, sem draga að sér vinnuaflið, verði líka að bera ábyrgð á því fólki, þegar það verður þurfamenn. Í öðru lagi var vítt harðlega óstjórn sú, sem verið hefir á Íslandsbanka, og heimtað að forsætisráðherra landsins væri ekki í bankaráði hans, né færi með umboð erlendra hluthafa. Stjórnin eða þeir af ráðherrunum, sem ábyrgð bera á því, að landið hefir ekki enn skipað trúnaðarmenn í Íslandsbanka, fékk vantraust fyrir hættulegt aðgerðaleysi í þeim efnum. Var í sömu tillögu tekið fram að stjórn Jóns Magnússonar hefði áður fallið frægðarlaus af sömu ástæðu.
Þá var í þriðja lagi skorað á þingið að beitast fyrir umbótum á afurðasölunni.

„Selfoss-fundurinn“ Tíminn 9. desember 1922. Bls. 166.


Hann var Úlfljótur Selfossborgar. Þar hefur gerst að verulegu leyti mikið landnám.
[…]
Hann gerði Selfoss, sem viðskiptastöð, með nokkrum hætti að þætti í heimilishaldi manna á hvurju byggðu bóli milli Ingólfsfjalls og Lómagnúps. Þáttur Egils í landnámi við Ölfusá er þó að mestu leyti andlegs eðlis.

Guðmundur Daníelsson: Jarlinn af Sigtúnum og fleira fólk. Viðtöl og þættir. Reykjavík 1980. Bls. 197-198.


Þegar undirritaður var snúningastrákur í Flóanum á sjötta áratugnum var Selfoss eins og hver önnur New York mitt í flatneskjunni. Og Kaupfélag Árnesinga ígildi World Trade Center. Eins og ósökkvandi flugmóðurskip eða Titanic klauf það regnhryðjurnar sem bylgjuðust eftir Suðurlandsundirlendinu. Það hefði þótt álíka sennilegt að þetta stórveldi ætti eftir að kollsigla sig og að til að mynda Ingólfsfjalli yrði einn góðan veðurdag mokað burt.
Og þó er það einmitt þetta sem hefur hent.
[…]
Hvaða álög skyldu annars hvíla á okkur að hagvöxtur og skynsemi skuli svo sjaldan haldast í hendur? Að bullandi óráð skuli vera kjöraðstæður efnahagslífsins?
Og samt eru þetta öfl sem ganga fram með grafalvarlegu bragði og skynsemina letraða á gunnfánann. Það hefði til að mynda aldrei komið til álita að nota þennan milljarð til að reisa fullkominn stjörnukíki uppi á Ingólfsfjalli. Sem þó hefði verið ókomnum og jafnvel núverandi kynslóðum til yndisauka og innblásturs. Fyrir utan aðsóknina hvaðanæva að með tilheyrandi stoppi í sjoppunni. […] Við eina saman uppástunguna hefðu ábyrgir aðilar í verktakabransanum hlegið hástöfum inn í handfrjálsa búnaðinn sinn og fjármálasnillingarnir horfið inn í farkosti sína.

Pétur Gunnarsson: „Undur og furður í Flóanum“ Fréttablaðið 20. júlí 2003. Bls. 11.


Hugsum okkur að ég gangi upp á Ingólfsfjall, finni þar hæfilega stóran stein og ýti við honum svo að hann velti fram af brúninni þar sem engin hætta stafar af honum. Svo kemur Jón Jónsson og snuprar mig fyrir þetta hættulega athæfi; steinninn hefði getað farið alla leið niður á Selfoss. Ég get þá svarað honum með því að gera útreikninga sem mundu sýna að steinninn geti alls ekki farið svo langt við þessar aðstæður. En ég get líka bent Jóni á öll björgin sem eru í hlíðum fjallsins og hafa augljóslega komið úr klettunum fyrir ofan. Steinninn sem ég velti af stað er ekkert öðru vísi en þessi björg að öðru leyti en því að það var mannshöndinn sem ýtti við honum en ekki jarðskjálfti eða rof af öðrum orsökum.

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Ógna tilraunir CERN með stóra sterkeindahraðlinum tilvist heimsins?“. Vísindavefurinn 10.9.2008. http://visindavefur.is/?id=48934.